Ágæti Sjálfstæðismaður
Um leið og ég óska þér gleðilegs árs og þakka samleiðina á síðasta ári vil ég á þessum tímamótum horfa til framtíðar en á sama tíma líta yfir farinn veg.
Reykjanesbær er öflugt sveitarfélag og tækifærin eru hér. Innviðir eru bæði sterkir og margir. Við erum með mjög góðar og samkeppnishæfar hafnir, nálægð við flugvöll sem gefur ótal tækifæri, mjög gott skólakerfi, sigursæl íþróttafélög, öflugt menningarlíf og svo mætti áfram telja. Tækifærin koma yfirleitt ekki af sjálfu sér, en mikill áhugi er á svæðinu okkar vegna þessarra góðu innviða. Það er okkar að grípa þessi tækifæri til hagsbóta fyrir alla.
Til þess að hlúa að góðu samfélagi þarf fólk á öllum aldri sem hefur vilja og getu til þess að láta gott af sér leiða. Hér býr duglegt fólk sem í gegnum árin hefur lagt sig fram með mikilli fórnfýsi og dugnaði við að gera bæinn okkar betri eins og við uppbyggingu atvinnulífs og vinnu við margar mikilvægar þjónustugreinar. Hér eru fjölmörg félagasamtök þar sem fólk lætur til sín taka til að efla samfélagið þannig að við njótum öll góðs af. Fyrir þetta ber að þakka þegar horft er yfir farinn veg.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú verið í minnihluta í sjö ár. Meirihlutanum er þrátt fyrir það tíðrætt um hvað Sjálfstæðisflokkurinn gerði þegar hann var síðast við stjórn, yfirleitt af vandlætingu og bornar sakir upp á Sjálfstæðismennum allt sem miður fer. Þannig virðist t.d. sú ákvörðun síðustu ára að lækka ekki fasteignaskatta (prósentan hefur lækkað en skattarnir ekki) vera Sjálfstæðismönnum að kenna, einnig háu útsvari, hægfara uppbyggingu á íþróttamannvirkjum, óviðunandi strætókerfi, leikskólaþjónustu sem rétt nær að sinna börnum tveggja ára og eldri og svo mætti lengi telja. Á sama tíma og mörg brýn hagsmunamál eru látnir sitja á hakanum hefur verið ráðið í fjölda nýrra starfa hjá sveitarfélaginu sem vissulega eru góð sem slík en alls ekki nauðsynleg. Nýlega var tekinn í notkun nýr grunnskóli í Stapahverfi, sem vissulega var nauðsynlegt að byggja en hefur fengið athygli um allt land vegna óþarfa íburðar á kostnað íbúa sem hefði verið hægt að komast hjá þó byggingin ásamt skólalóð sé bæði falleg og notadrjúg. Forgangsröðun annarra kostnaðarsamra framkvæmda við núverandi ástand er einnig röng að okkar mati. Það er löngu kominn tími til að meirihlutinn fari sjálfur að bera ábyrgð á því sem aflaga fer í stað þess að varpa ábyrgðinni á Sjálfstæðisflokkinn og stjórn hans fyrir meira en sjö árum. Í ljósi yfirlýsinga núverandi meirihluta um að fjárhagsstaðan sé búin að vera svo slæm eftir viðskilnað Sjálfstæðismanna er áhugavert að skoða eftirfarandi staðreyndir sem koma fram í ársreikningum bæjarsjóðs Reykjanesbæjar árið 2014 (þegar núverandi meirihluti tók við) og bera saman við árið 2020:
- Tekjuaukning frá 2014 – 2020: 78%
- Aukning launakostnaðar frá 2014 – 2020: 94%
- Fjögun stöðugilda hjá bænum frá 2014 – 2020: 35%
- Fjögun íbúa frá 2014 – 2020: 32%
- Aukning á skuldum og skuldbindingum 2014 – 2020: 32%
- Hækkun á vístölu neysluverðs frá árslokum 2014 til ársloka 2020 : 16%
Mikill áherslumunur er á stjórnmálaflokkum þegar kemur að því hvernig best er að nálgast þjónustu og fjárhag sveitarfélagsins. Sjálfstæðisflokkurinn er óþreytandi við að nefna að atvinna er undirstaða alls; undirstaða velferðar, undirstaða menntunar, undirstaða öflugs íþrótta- og menningarlífs, undirstaða góðs umhverfis og svo mætti lengi telja. Auk þess teljum við Sjálfstæðismenn að þegar upp koma erfiðleikar hjá hinu opinbera eins og sveitarfélögum, þá sé ekki leiðin að íþyngja heimilum og fyrirtækjum með aukinni skattheimtu. Fólk er almennt betur til þess fallið að ráðstafa sínu eigin fé þannig að ekki sé alltaf verið að taka meira og meira af fólki í skatt vegna skorts á framtíðarsýn stjórnmálamanna. Við berum þó öll ábyrgð á því að greiða í sameiginlega sjóði til þess að geta veitt öllum okkar íbúum góða grunnþjónustu
Sýn okkar Sjálfstæðismanna er sú, að mikilvægt sé að auka tekjur sveitarfélagsins. Það ættum við að gera með því að laða að öflug fyrirtæki og fjölga íbúum og greiðendum um leið og við lækkum álögur á bæði einstaklinga og fyrirtæki, byggja upp leikskólakerfi sem er fyrsta skólastigið þannig að börn komist fyrr að á leikskólum og foreldrar sem hafa áhuga á að fara út á vinnumarkaðinn eftir fæðingarorlof hafi tækifæri til þess. Okkar sýn er að Reykjanesbær verði á ný samkeppnishæfur við þau sveitarfélög sem við berum okkur saman við.
Góðir Sjálfstæðismenn, eflum Reykjanesbæ þannig að hann verði aftur eftirsóknarverðasta sveitarfélagið. Reykjanesbær er stórveldi í samhengi sveitarfélaga með tækifærin allt um kring. Horfum til framtíðar á tækifærin sem bíða þess að við grípum þau.
Margrét Sanders
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ